Till innehåll på sidan

Rammasamning Islendska

Samningur milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um samvinnu milli landanna yfir landamærin til að koma í veg fyrir eða takmarka tjón á fólki, á eignum eða í umhverfinu af völdum slysa.
Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar,
sem eru sannfærðar um nauðsyn á samvinnu milli bærra stjórnvalda í samningsríkjunum með það að markmiði að auðvelda nauðsynlega gagnkvæma aðstoð í slysatilvikum á friðartímum, og að hraða því að koma hjálparliði og búnaði á vettvang, sem líta á þennan samnings sem rammasamning sem er ætlað að vera viðbót við aðra norræna marghliða eða tvíhlíða samninga á þessu sviði, og sem óska að efla samstarfið á þessu sviði enn frekar, hafa orðið ásáttar um eftirfarandi:

1. gr.

Samningur þessi gildir um samvinnu yfir landamærin með það fyrir augum, þegar slys ber að höndum eða þau eru yfirvofandi, að koma í veg fyrir eða takmarka tjón á fólki, á eignum eða í umhverfinu.
Samningsríkin skulu í landslögum sínum og öðrum ákvæðum leitast við að ryðja úr vegi, eftir því sem unnt er, hindrunum fyrir slíku samstarfi.

2. gr.

Sérhvert samningsríki skuldbindur sig til, er slys ber að höndum eða það er yfirvofandi, að veita nauðsynlega aðstoð eftir því sem tök eru á og í samræmi við ákvæði samningsins.
Ákvæðum 3.–5. gr. skal aðeins beitt ef ekki er öðruvísi kveðið á í tvíhliða samningum eða öðrum marghliða samningum.

3. gr.

  1. Stjórnvald í samningsríki, sem ber ábyrgð, er slys ber að höndum, á aðgerðum til að koma í veg fyrir eða takmarka tjón á fólki, á eignum eða í umhverfinu, getur borið fram beiðni um aðstoð beint til bærs stjórnvalds í öðru samningsríki. Stjórnvaldið sem beiðni er beint til, metur að hve miklu leyti unnt er að veita slíka aðstoð.
  2. Stjórnvöld í ríki því sem leitar aðstoðar bera fulla ábyrgð á stjórn aðgerða á slysstað, nema við þær aðstæður að slysstaður liggi á landsvæði annars samningsríkis. Starfslið frá landinu sem veitir aðstoð er til ráðstöfunar og lýtur fyrirmælum eigin stjórnanda og innir störf sín af hendi í því ríki sem leitar aðstoðar í samræmi við þær starfsreglur sem gilda í eigin ríki.
  3. Ríki sem leitar aðstoðar ber að sjá til þess að ökutæki, björgunarbúnaður og annar búnaður, sem fluttur er með til afnota í björgunaraðgerð, þurfi ekki að sæta formsatriðum vegna inn- eða útflutnings og séu undanþegin sköttum og gjöldum. Ökutæki, björgunarbúnað og annan búnað má nota í samræmi við gildandi ákvæði í landinu sem veitir aðstoð, án sérstakra leyfa. Þegar björgunaraðgerð er lokið skal flytja ökutæki, björgunarbúnað og annan búnað úr landinu eins fljótt og auðið er. Hið sama gildir varðandi æfingar á björgunaraðgerðum.
  4. Ef aðstoð tekur til herliðs, ríkisökutækja, ríkisloftfara eða herökutækja, sem þarfnast sérstaks leyfis til flutnings yfir landamæri, skal stjórnvaldið sem leitar aðstoðar afla slíks leyfis. Uns slíkt leyfi er fengið verður ekki um flutning yfir landamæri að ræða.

4. gr.

Fyrir framlag til björgunaraðgerða samkvæmt samningi þessum skal greiða kostnað samkvæmt eftirfarandi reglum:
  1. Ríkið sem veitir aðstoð á rétt á að fá greidd frá ríkinu sem leitar aðstoðar útgjöld vegna aðgerðanna í þeim mæli sem rekja má þau til aðstoðarinnar sem veitt var.
  2. Ríkið sem leitar aðstoðar getur hvenær sem er afturkallað aðstoðarbeiðni sína, en þá á ríkið sem veitir aðstoð rétt á að fá bættan kostnað sem það hefur orðið fyrir.
  3. Ríkið sem veitir aðstoð skal ávallt vera reiðubúið að veita upplýsingar um áætlaðan kostnað vegna aðstoðarinnar.
  4. Leggja skal til grundvallar útreikningi á kostnaðinum þau útgjöld sem hlotist hafa.
  5. Þessi ákvæði skerða ekki rétt samningsaðila til þess að krefja þriðja mann um greiðslu kostnaðar samkvæmt öðrum ákvæðum og reglum í landslögum eða þjóðarétti sem unnt er að beita.

5. gr.

  1. Ríki sem leitar aðstoðar er ábyrgt fyrir tjóni sem hlýst af aðstoð sem veitt er á eigin landsvæði samkvæmt þessum samningi. Ríkið sem leitar aðstoðar er skuldbundið til þess að leiða til lykta málsóknir eða semja um eða gera sátt um skaðabótakröfur sem þriðji maður beinir gegn ríki sem veitir aðstoð eða liðsmönnum þess. Ríki sem leitar aðstoðar er ábyrgt fyrir öllum málskostnaði og öðrum kostnaði sem tengist slíkum kröfum.
  2. Ríki sem leitar aðstoðar skal greiða ríki því sem aðstoð veitir skaðabætur vegna dauðsfalla eða líkamstjóns sem liðsmenn þess verða fyrir og enn fremur bæta tap eða tjón á búnaði eða munum sem hlotist hefur sem afleiðing af aðstoðinni á landsvæði þess ríkis sem leitar aðstoðar.
  3. Ríki sem veitir aðstoð er ábyrgt fyrir tjóni sem hlýst á eigin landsvæði.
  4. Ríki sem leitar aðstoðar á, hafi það greitt skaðabætur samkvæmt þessari grein, rétt á endurkröfu gagnvart liðsmönnum hjálparliðs er valdið hefur tjóninu af ásetningi eða af stórfelldu gáleysi.

6. gr.

  1. Samningsríkin skulu veita hverju öðru upplýsingar er máli skipta varðandi þennan samning um skipulag björgunarþjónustu og hver hin bæru stjórnvöld eru, svo og um löggjöf og mikilvægar breytingar sem þýðingu hafa varðandi þennan samning. Þar að auki skulu samningsríkin stuðla að því að þróa samvinnuna sín á milli á þessu sviði.
  2. Að því er varðar beitingu samningsins í framkvæmd er gert ráð fyrir því að bær stjórnvöld í hlutaðeigandi samningsríkjum séu í beinu sambandi hvert við annað.
  3. Fundi skal halda innan ramma þessa samnings þegar hagkvæmt er talið.

7. gr.

Samingurinn öðlast gildi að liðnum þrjátíu (30) dögum frá þeim degi þegar tvö af samningsríkjunum hafa tilkynnt sænska utanríkisráðuneytinu skriflega að þau hafi staðfest samninginn.
Af því er varðar samningsríki, sem tilkynnir eftir að samningurinn öðlast gildi að það staðfesti samninginn, öðlast samningurinn gildi þrjátíu (30) dögum eftir að sænska utanríkisráðuneytið veitir tilkynningu um það móttöku.
Sænska utanríkisráðuneytið tilkynnir hinum samningsríkjunum um móttökudag slíkra tilkynninga og um gildistökudag samningsins.

8. gr.

Ísland getur gerst aðili að þessum samningi. Aðildarskjalið skal afhent til vörslu í sænska utanríkisráðuneytinu. Samningurinn öðlast gildi að því er Ísland varðar þann dag þegar aðildarskjalið er afhent til vörslu. Sænska utanríkisráðuneytið lætur öðrum samningsríkjum í té skriflega tilkynningu um afhendingardaginn

9. gr.

Samningsríki getur sagt upp samningnum með því að tilkynna það skriflega til sænska utanríkisráðuneytisins, en það tilkynnir öðrum samningsríkjum um móttökudag slíkrar tilkynningar og um efni hennar.
Uppsögn gildir aðeins fyrir það samningsríki sem segir upp samningnum og öðlast gildi að liðnum sex (6) mánuðum frá þeim degi þegar sænska utanríkisráðuneytið veitir tilkynningu um uppsögn móttöku.

10. gr.

Frumeintak þessa samnings skal varðveitt í sænska utanríkisráðuneytinu er lætur öðrum samningsríkjum í té staðfest endurrit af honum.
Þessu til staðfestingar hafa neðangreindir aðilar, sem hafa til þess fullt umboð undirritað þennan samning.
Gjört í Stokkhólmi hinn 20. janúar 1989 í fjórum eintökum á dönsku, finnsku, norsku og sænsku og eru allir textarnir jafngildir.

 

Kontaktpunkter

Nationella kontaktpunkter

Kontakta Anders Lundberg för användarnamn
och lösenord.

Nordhels

Nordhels - det nordiska hälsoberedskapssamarbetet.

www.nordhels.org